Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 514  —  126. mál.
Viðbót. Undirskrift.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (tilkynningar um brot á fjármálamarkaði).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjörleif Gíslason og Leif Arnkel Skarphéðinsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Önnu Mjöll Karlsdóttur og Hildi Jönu Júlíusdóttur frá Fjármálaeftirlitinu og Helgu Þórisdóttur og Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd. Umsagnir bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Persónuvernd, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um skyldu fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitsins til að hafa ferla til að taka við tilkynningum um brot. Frumvarpið byggist á 71. gr. tilskipunar 2013/36/ESB sem ráðgert er að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Persónuvernd gerði athugasemd við að í síðari málslið 1. mgr. a-liðar 1. gr. og 1. málsl. 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins væri tilgreint að unnt skyldi vera að koma tilkynningum á framfæri nafnlaust og benti á að ýmsir annmarkar fylgdu nafnlausum tilkynningum. Nafnleysi kæmi ekki í veg fyrir að aðrir gætu sér til um hver hefði tilkynnt brot. Erfiðara gæti verið að rannsaka mál þar sem ekki væri hægt að ráðfæra sig við þann sem tilkynnti. Auðveldara væri að vernda þann sem tilkynnti gegn hugsanlegum hefndaraðgerðum ef fyrir lægi hver hann væri. Innan fyrirtækja kynni það að verða venjubundið að senda nafnlausar tilkynningar til að koma höggi á menn og andrúmsloft innan fyrirtækja kynni að verða slæmt ef starfsmenn væru sér meðvitaðir um að sendar kynnu að verða um þá nafnlausar tilkynningar. Persónuverndarsjónarmið tækju jafnt til þess sem tilkynnir og þess sem tilkynning beinist að. Ábendingar Persónuverndar studdust við viðhorf og tillögur evrópskra persónuverndarstofnana.
    Meiri hluti nefndarinnar telur heppilegra að tilkynningar séu sendar undir nafni en að á móti sé gætt leyndar um þann sem tilkynningu sendir, líkt og gert er ráð fyrir í 1. mgr. b-liðar 1. gr. og 2. málsl. 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar telur því rétt að fella brott vísanir síðari málsliðar 1. mgr. a-liðar 1. gr. og 1. málsl. 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins til nafnlausra tilkynninga. Brottfall þeirra útilokar þó ekki að fjármálafyrirtæki eða Fjármálaeftirlitið taki við nafnlausum tilkynningum en með þeim hætti er skýrara að ekki sé sérstaklega hvatt til þeirra. Nefndin fékk Fjármálaeftirlitið á sinn fund til að bera undir það breytingartillöguna og eftirlitið gerði ekki athugasemd við hana.
    Samtök fjármálafyrirtækja lögðu til að fyrirtæki yrðu undanþegin skyldu til að setja upp ferla fyrir móttöku tilkynninga ef starfsmenn væru fimm eða færri. Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis kom fram að slík undanþága samræmdist ekki tilskipunum 2013/36/ESB, 2014/91/ESB og 2014/65/ESB. Meiri hluti nefndarinnar leggur því ekki til slíka breytingu.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Orðin „og tilkynningum skal vera unnt að koma á framfæri nafnlaust“ í síðari málslið 1. mgr. a-liðar 1. gr. falli brott.
     2.      Orðin „og skal vera unnt að koma tilkynningu á framfæri nafnlaust“ í 1. málsl. 2. efnismgr. 3. gr. falli brott.

    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. mars 2017.

Óli Björn Kárason,
form.
Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Brynjar Níelsson. Katrín Jakobsdóttir,
með fyrirvara.
Lilja Alfreðsdóttir.
Vilhjálmur Bjarnason.